Önnur nýjungin var að kúsksætið var hliðarsett! Til heiðurs hennar hátignar, á afmælisdegi hennar, var kynntur nýr leiguvagn, 23. apríl 1823. Hr. Davies, sem hafði hannað Pæton-vagninn, smíðaði 12 þannig vagna sem voru kynntir þennan dag í apríl. Þessir leiguvagnar voru byggðir fyrir tvo farþega en kúskurinn var staðsettur til hliðar. Með vagninum var fargjaldsskráin svo hættan væri minni á að farþegarnir væru látnir greiða rangt verð. Farareyrir var þriðjungi minni en hjá Hackey-leiguvögnunum. Kom hugmyndin að gulu leigubílunum í New York þaðan þarna?
Nýju vagnarnir voru gulir að lit með einn einkar sérstakan stíl sem íbúar voru mjög hissa á. Eins og áður sagði var kúskurinn til hliðar við yfirbygginguna og utan við húddið. Með þessu var meiri möguleiki á að farþegarnir nytu þess að vera ótruflaðir og einangrun þeirra væri tryggð; sérstaklega ef tjöldin að framan voru dregin fyrir. Yfirbyggingin líktist helst líkkistu sem stóð upp í endann og fékk þannig viðurnefnið Líkkistuvagninn (coffin-cab) og var ýmislegt skemmtilegt sem gárungarnir létu frá sér fara í bundnu máli og texta ásamt frásögnum sér og öðrum til skemmtunar.
Heimild: Carriage & coaches: their history & their evolution bls 245-6 útgefin 1912.
Skráði og þýddi: Friðrik Kjartansson
Yfirlestur: malfridur.is